Ég virðist bara ekki hafa nógu margar klukkustundir í sólarhringnum. Ég næ aldrei að ljúka deginum í vinnunni innan réttra tímamarka. Ég þeytist á milli funda og hef engan tíma til að draga andann allan daginn. Ég borða á hlaupum eða funda í hádeginu og gleypi þá í mig einhverja óhollustu. Þegar heim er komið bíða fjölskylduskuldbindingarnar sem ég reyni af veikum mætti að taka þátt í. Íþróttamótin, skólastarfið. Mér finnst ég vera að klóra í bakkann á öllum sviðum lífs míns. Ég er stressuð, fæ höfuðverki og virðist aldrei geta sofið nógu mikið. Ég hef engan tíma til að hugsa um heilsuna og alls ekki til að stunda líkamsrækt.
Hljómar kunnuglega?
Örar þjóðfélagsbreytingar undanfarinna áratuga hafa valdið því að starfsumhverfi okkar er þrungnara streituvöldum en áður. Með tilkomu tölvupóstsins ganga samskipti hraðar fyrir sig, greiðari samgöngur landa á milli gera það að verkum að ferðalög til viðskiptafélaga erlendis eru mun auðveldari og tíðari, símabyltingin veldur því að við erum á vaktinni allan sólarhringinn, allt árið um kring nánast. Á tímum fjarvinnu er gerð sú krafa að starfsmenn séu með hugann við vinnuna heimavið. Skv. launakönnun VR í ár stundar 34% þeirra félagsmanna fjarvinnu. Skrifstofan okkar er í fartölvunni og ef við erum ekki í netsambandi færist hún yfir í símann. Við erum alltaf á vaktinni.
Við erum knúin til að gera meira úr þeim auðlindum sem við búum yfir, vinna lengur, afkasta meiru. Vinnuvikan er sífellt að lengjast og er nú skv. launakönnun VR 45 stundir og er langt frá því að styttast þrátt fyrir umræðum um langa vinnuviku. Umhverfi okkar er orðið það þrúgað streitu að drífandi jákvæð áhrif hennar eru fyrir löngu búin að snúast upp í andhverfu sína og farin að valda lakari frammistöðu, meiri fjarvistum frá vinnu og í kjölfarið auknum lækniskostnaði. Kannanir hafa sýnt að þeir sem vinna lengstu vinnuvikuna eru hvað óánægðastir í starfi en óánægja í starfi er ótvírætt enn einn streituvaldurinn.
Við höfum litla sem enga stjórn yfir þeim kröfum sem við þurfum að mæta á vinnustaðnum. Við mætum áreiti hvarvetna. Kröfur frá yfirmönnum, hluthöfum, samstarfsmönnum, fjölskyldu, vinum. Okkur finnst við oftar en ekki vera að standa okkur illa á einhverju eða öllum þessara sviða. Þegar það gerist fyllumst við vonbrigðum, reiði og gremju. Ekki einasta er það vinnan og fjölskyldan heldur einnig fjárhagslegar kröfur samfélagsins um húsið, bílinn, garðinn, sumarbústaðinn, skíðaferðirnar, sumarfríin og allt það sem við höfum tilhneigingu til að gleyma okkur við í síauknum hraða.
Hver eru áhrif streitunnar?
Ekki eru til tölulegar staðreyndir um bein áhrif streitu á íslenskt efnahagslíf. Sambærilegar tölur eru hins vegar til frá Ameríku. Á tímum þegar heimsfrumsýningar bandarískra bíómynda fara fram á Íslandi má hæglega færa fyrir því rök að hlutfallslegur kostnaður sé sambærilegur hér á landi. Ef ekki í dag þá í það minnsta eftir nokkur ár ef ekkert verður að gert.
- Minniháttar þunglyndi sem þjakar æ fleiri Bandaríkjamenn er talin orsaka 51% fleiri veikindadaga en alvarlegri þunglyndistilfelli.
- Þriggja ára rannsókn innan bandarískra stórfyrirtækja sýndi fram á að 60% fjarvista starfsmanna orsakaðist af sálrænum vandamálum.
- Yfir helmingur tapaðra vinnudaga í Bandaríkjunum eru vegna streitutengdra kvilla.
- Streita kostar atvinnurekendur 150 milljarða bandaríkjadala árlega. Sú upphæð er áætluð út frá minni framlegð, fjarvistum, slæmum ákvörðunum, streitutengdum geðsjúkdómum og misnotkun lyfja.
- 46% allra starfsmanna í Bandaríkjunum eru það stressaðir að þeir nálgast „burnout“ í starfi.
- Einn af hverjum fjórum bandarískra starfsmanna þjáist af geðrænum kvillum sem má rekja til streitu.
Álagið er að aukast
Við getum öll verið sammála um að kröfurnar og álagið á vinnustöðum er að aukast. Í nokkurra ára gamalli grein úr VR fréttum fjallar Hildur Friðriksdóttir á áhugaverðan hátt um álag í og utan vinnu. Hildur segir m.a. að það þyki á mörgum vinnustöðum fínt að vinna langan dag og starfsmönnum finnist erfitt að rísa upp á móti slíkri vinnumenningu. Haldi jafnvel að slíkt hafi áhrif á frama þeirra innan fyrirtækisins og möguleika á stöðuhækkunum. Þetta hefur undirrituð heyrt hjá fjölmörgum undanfarna mánuði.
Samkeppni innan vinnustaða er einnig að aukast mjög mikið. Bandarískir starfsmenn eru tregir til að taka sér frí til að dragast ekki aftur úr með verkefni sem á þeim hvíla eða hafa áhyggjur af því að yfirmenn þeirra finnist þeir sýna linkind með því að taka sér frí. Þegar efnahagsástandið er slæmt bætist við óttinn um að missa starfið og fólk fer að leggja enn harðar að sér og vinna lengri daga til að sýna enn meiri árangur og tryggja sig í starfi. Þetta eykur augljóslega líkurnar á hjarta og æðasjúkdómum og streitutengdum sjúkdómum.
Í hnotskurn má segja að álagið sé of mikið, áreitið of mikið og við sjáum ekki fram úr verkefnum.
Hvernig berst líkaminn við?
Streitustjórnun líkamans fer fram í nýrnahettunum sem framleiða adrenalín. Adrenalínu er ætlað að auka mótstöðu okkar við auknu álagi. Þegar við hrökkvum við spennumst við upp og verðum allt í einu mjög vakandi í örskamma stund. Þetta eru streituvarnir líkamans. Þeim fer fjölgandi sem þjást af skertri getu nýrnahettanna til að framleiða þetta streituhamlandi efni. Þessi skerta geta orsakast bæði af þáttum í umhverfinu, eins og af ofálagi, og næringarefnaskorti, þ.e. neyslu unninna matvæla og/eða þeirri staðreynd að máltíðum er sleppt. Neysla áfengis, sykurs, nikótíns, koffíns og fleiri skyldra efna veldur kemísku ofaálagi á nýrnahetturnar. Þunglyndi, kvíði, árásargirni, skapsveiflur, sektarkennd, áhyggjur, taugaveiklun og skert geta til að bregðast við í krefjandi aðstæðum veldur annarskonar álagi á nýrnahetturnar, sk. tilfinningalegu álagi.
Bæði kemískt álag og tilfinningalegt álag veldur líkamlegum einkennum eins og of háum blóðþrýstingi, hjartsláttartruflunum, þurri húð, krónískum sýkingum, svefnleysi, höfuðverkjum, meltingartruflunum, stöðugri þreytu, flökti á blóðsykri, vandamálum í stoðkerfi og svo mætti lengi telja.
Líkamleg einkenni kalla á læknisheimsóknir. Og oft þarf þær þónokkrar til að komast að rótum vandans. Í mörgum tilfellum er viðkomandi greindur með vægt þunglyndi og fær ávísað lyfjum til að meðhöndla það. Frægar eru tölur um gríðarlega notkun Íslandinga á þunglyndislyfjum. Vissulega er þeirra þörf í mörgum tilfellum og skal alls ekki dregið úr nytsemi slíkra lyfja hér. Hins vegar skal á það bent að reyna mætti önnur úrræði fyrst svo sem breytingar á mataræði og/eða reglubundin líkamsþjálfun. Það eitt dugar í mörgum tilfellum til að koma fólki á beinu brautina og út úr vítahring álags og streitu. Líkaminn verður smátt og smátt betur í stakk búinn til þess að bregðast við streitunni. Nýrnahetturnar öðlast aukna starfsgetu og einstaklingurinn þannig betur í stakk búinn til að takast á við eril og amstur dagsins.
Bregstu við núna!
Til eru einföld ráð sem hjálpa til við að létta okkur álagið í amstri dagsins og hafa hemil á streitunni.
- Slíttu þig frá öllu a.m.k. einu sinni í viku. Ekkert sjónvarp, engin tölva, enginn sími. Bara þú og tími fyrir þig til að hugsa. Við erum svo upptekin af því að vera upptekin að við kunnum orðið ekki að slíta okkur frá og hugsa án áreitis.
- Settu skýr mörk. Við verðum að hafa skýr skil á milli vinnunar, heimilisins og samskiptum við fjölskyldu og vini. Ef við erum að skoða póstinn okkar heima á kvöldin erum við að stela tíma frá fjölskyldunni. Þegar þú ferð út af skrifstofunni skildu vandamálin eftir til næsta dags. Nýleg auglýsingaherferð VR varpar mjög skýru ljósi á þetta atriði.
- Forgangsraðaðu. Verkefnalistar eru góð leið til að forgangsraða. Ef þú hrekkur upp um miðjar nætur og hugsar um vinnutengd vandamál (skýrt dæmi um að streitustjórnunarkerfi líkamans er ekki að virka sem skyldi) er ráðlegt að enda alla vinnudaga á því að gera lista yfir verkefni sem bíða morgundagsins. Með því móti hrekkurðu síður upp um nætur hrædd(ur) um að þú sért að gleyma einhverju.
- Hreyfðu þig. Þú slærð margar flugur í einu höggi. Þú losar um spennu í líkamanum. Styrkir þig og eykur þolið. Þú uppskerð aukna orku, sefur betur og lítur að sjálfsögðu betur út. Ónæmiskerfið styrkist og mótsöðuaflið fyrir umgangspestum verður meira.
- Borðaðu hollan mat og alls ekki sleppa morgunverði. Þegar streitan nær yfirhöndinni hættir okkur til að sleppa morgunverði sem gerir ástandið enn verra. Um miðjan morgun erum við orðin glorhungruð og grípum þá það sem hendi er næst, oftar en ekki skyndilausnir sem eru salt- og fituríkar. Rannsóknir hafa sýnt fram á tengls þunglyndis og skorts á B6 og B12 vítamíni. B vítamín er nauðsynlegt serótónínframleiðslu líkamans og fleiri boðefnum sem við þurfum á að halda til að viðhalda jafnvægi í geðheilsu okkar. Borðaðu nóg af grænu grænmeti, banana, kjúkling, kjöt og gróft korn.
- Hafðu hollt snarl meðferðis hvert sem þú ferð. Möndlur, hnetublöndur, gróft brauð og ávextir eru góðir bitar til að grípa í, sérstaklega þegar við verðum orkulaus um miðjan daginn. Þetta er mun hollara en sætabrauð og sælgæti, en munið að allt er gott í hófi. Þó þetta séu hollari valkostir þá getur of mikið af því góða haft áhrif á mittismálið þegar um hnetur og fræ er að ræða.
- Kauptu blóm. Það er gott að horfa á eitthvað fallegt. Falleg afskorin blóm eða blómstrandi pottablóm gleðja augað bæði heima við og á skrifstofunni. Sterkir litir fylla okkur orku og minna okkur á að gefa okkur tíma til að anda að okkur ilmi blómanna og njóta dagsins. Það þarf ekki að vera flólkið að stjórna streitunni!
- Lærðu að hlæja. Hláturinn lengir lífið. Það er ekki flóknara en það. Líkaminn bregst líka við á jákvæðan hátt þegar við hlæjum. Við framleiðum meira af efnum í munnvatni sem koma í veg fyrir sýkingar í öndunarvegi, hann lækkar blóðþrýsting, styrkir kviðvöðva og margt fleira. Það að geta hlegið og séð það skondna í lífinu breytir ekki bara sjónarhorni okkar á lífið heldur lætur okkur líða vel.
- Farðu í nudd. Nudd linar streitu, er slakandi, dýpkar öndun og auðveldar hana og fullnægir snertiþörf okkar. Það styrkir sjálfsmyndina, minnkar kvíða og eykur tengingu hugar og handar.
- Dragðu andann djúpt. Fljótlega eftir að við komum í þennan heim glötum við hæfileikanum til að anda djúpt niður í kviðarholið. Þegar við erum kvíðin og stressuð öndum við grunnt og örar. Við fáum ekki nægilegt súrefni og það eykur vanlíðanina og streituna. Gefðu þér tíma nokkrum sinnum á dag til að draga andann djúpt niður í gegnum þindina til að hægja á hjartslættinum og lækka blóðþrýstinginn.
Mundu að kapphlaupið við tímann er eina kapphlaupið sem við getum aldrei unnið, sama hvað við streitumst við. Láttu tímann vinna með þér ekki á móti og njóttu heilbrigðara og fyllra lífs.
Unnur Valborg Hilmarsdóttir,